Flýtitenglar

Staða sauðfjárræktar til umræðu

Á síðasta fundi stjórnar félagsins var sú grafalvarlega staða sem sauðfjárbændur á starfssvæði félagsins standa frammi fyrir til umræðu og var eftirfarandi bókun gerð:

Rætt um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin hjá sauðfjárbændum eftir að afurðastöðvar tilkynntu um allt að 35% lækkun á kjötverði til þeirra. Ljóst er að sauðfjárrækt er einn af grunnatvinnuvegum svæðisins og gríðarlega mikilvæg í byggðalegu tilliti á ákveðnum hlutum  þess. Þá eru á starfssvæðinu reknar tvær afurðastöðvar ásamt verulegri kjötvinnslu. Stór áföll í greininni geta því hæglega leitt af sér samfélagsbrest með ófyrirséðum afleiðingum fyrir allt svæðið. Sérstök ástæða er til þess að minna á að stór hluti svæðisins er laus við helstu sauðfjársjúkdóma auk þess að vera vel fallinn til sauðfjárræktar hvað landgæði varðar. Það er því skynsamlegt í þjóðhagslegu tilliti að þannig verði unnið úr núverandi stöðu að sauðfjárrækt á svæðinu geti frekar eflst en að hún dragist verulega saman.

Ný lán til nýsköpunar í landsbyggðunum

mynd af vef ByggðastofnunarByggðastofnun, í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, hefur hleypt af stokkunum nýjum lánaflokki. Nýsköpunarlán munu skapa grundvöll til aukinnar nýsköpunar og þar með aukinna atvinnutækifæra í landsbyggðunum. Nýsköpunarlánum er ætlað að bæta úr aðgengi landsbyggðanna að þolinmóðu lánsfjármagni. – sjá nánar

Styrkir og skattafsláttur vegna vöruþróunar- og nýsköpunarverkefna

Samtök Iðnaðarins bjóða félagsmönnum sínum á kynningarfund þar sem gefið verður stutt yfirlit yfir helstu sjóði sem bjóða styrki sem henta framleiðslufyrirtækjum og í kjölfarið býðst félagsmönnum að hitta sérfræðinga sem þekkja vel til í styrkjakerfinu, geta leiðbeint um hvaða sjóðir henta í hverju tilviki og gefið ráð um hvernig á að skrifa góðar umsóknir. Ekki er nauðsynlegt að vera með verkefnishugmynd til að koma á fund. Fundur verður á Akureyri 4. september kl. 13.00
Skráning og upplýsingar á vef SI

Leitum að nýjum liðsmanni!

Við leitum að nýjum liðsmanni til að taka við verkefnisstjórn í byggðaeflingarverkefninu Öxarfjörður í sókn. Verkefnið er unnið í samstarfi við Byggðastofnun, Norðurþing, Eyþing og síðast en ekki síst, íbúa Öxarfjarðarhéraðs. Um er að ræða fullt starf út verkefnistímann sem er til ársloka 2019. Gott væri ef viðkomandi gæti byrjað á haustdögum eða snemma vetrar. Frekari upplýsingar um starfið er að finna í meðfylgjandi auglýsingu sem getur verið gott að hafa með sér í sumarfríið!  – Sjá auglýsingu.

Norðurslóðaáætlunin opnar fyrir umsóknir 1. október 2017

Norðurslóðaáætlunin (NPA) er samstarfsverkefni Finnlands, Svíþjóðar, Skotlands, Írlands, Norður-Írlands, Íslands, Grænlands, Færeyja og Noregs. Markmið NPA er að aðstoða íbúa á norðurslóðum við að skapa þróttmikil og samkeppnishæf samfélög með sjálfbærni að leiðarljósi. Ástæða tilkynningarinnar núna er til að veita væntanlegum umsóknaraðilum rúman tíma til að þróa verkefnahugmyndir sínar, finna samstarfsaðila og tryggja mótframlög. – SJÁ NÁNAR