Flýtitenglar

Framlög til uppbyggingar ferðamannastaða

Starfssvæði Atvinnuþróunarfélags ÞingeyingaÍ dag var tilkynntu Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um úthlutun á rúmlega 722 milljóna króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til 56 verkefna. Þar af koma tæpar 136 milljónir króna í hlut verkefna á starfssvæði atvinnuþróunarfélagsins til 5 verkefna. Þau verkefni sem um ræðir eru:

Fuglastígur á Norðausturlandi – Bygging þriggja fuglaskoðunarskýla og hönnun skýlis til selaskoðunar. Kr. 15.039.600.- styrkur til að byggja þrjú fuglaskoðunarskýli og hönnun skýlis til selaskoðunar. Verkefnið sameinar góða hönnun og náttúruvæna afþreyingu sem byggir á sérstöðu Norðausturlands sem fjölbreytilegasta fuglaskoðunarhérað landsins að öðrum ólöstuðum. Verkefnið er til þess fallið að auka ferðamennsku á veiku svæði og á veikri árstíð.

Norðurþing – Bifröst- göngubrú að Heimskautsgerði. Kr. 22.500.000.- styrkur til að byggja brú frá bílastæði að Heimskautagerðinu. Brúin Bifröst er hugsuð og hönnuð til að efla upplifun ferðafólks ásamt því að vernda náttúru svæðisins fyrir frekari ágangi. Heimskautagerðið við Raufarhöfn er metnaðarfullt og áhugvert verkefni sem gæti með réttri uppbyggingu orðið mikilvægur ferðamannasegull fyrir eitt veikasta ferðamannasvæði landsins. Verkefnið er eitt skref í þá átt.

Skútustaðahreppur – Gönguleið og fræðsluskilti í Höfða í Mývatnssveit: aðgengi fyrir alla. Kr. 9.057.491.- styrkur til að endurgera og bæta ferðamannastaðinn Höfða í Mývatnssveit. Tilgangurinn er að efla áningarstaðinn með aðgengi fyrir alla og sjálfbærni að leiðarljósi, auka aðdráttarafl utan háannatíma og létta á nærliggjandi ferðamannastöðum. Vel undirbúið verkefni sem snýr að náttúruvernd og öryggismálum á fornfrægum ferðamannastað.

Þingeyjarsveit – Endurbætur á umhverfi Goðafoss. Kr. 74.000.000.- styrkur til að bæta aðgengi og auka öryggi ferðamanna, auk þess að vernda umhverfi Goðafoss. Verkefninu er að mestu lokið austan Skjálfandafljóts en nú er lögð áhersla á framkvæmdir vestan fljótsins, þ.e. gerð bílastæðis, útsýnispalls, göngustíga, upplýsingaskilta og fleira. Einn allra mikilvægasti ferðamannastaðurinn á Norðurlandi eystra. Nauðsynleg framkvæmd vegna náttúruverndar og öryggismála. Lagt er til að mótframlag Þingeyjarsveitar verði fellt niður að beiðni umsækjenda.

Aurora Observatory – Aðkoma og kynning, gestastofa og norðurljósasýning í rannsóknarhúsinu að Kárhóli. Kr. 15.000.000.- styrkur til að tryggja örugga aðkomu að Kárhóli og miðlun upplýsinga til allra er framhjá aka. Um er að ræða útskot við veg, upplýsingaskilti við útskot og göngustíg frá bílastæði að sýningarrými. Afar áhugavert verkefni sem stuðlar að uppbyggingu nýs ferðamannastaðar sem nýtur aðdráttarafls og sérstöðu norðurljósanna og einstakrar samþættingu vísindastarfs og ferðamennsku.

Hér má nálgast upplýsiungar um úthlutunina í heild ásamt framlögum til þriggja ára verkefnaáætlunar landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem gildir fyrir árin 2018 – 2020.