Flýtitenglar

Gerum okkur mat úr jarðhitanum- Eimur hugmyndasamkeppni

Hugmyndasamkeppni um matvælaframleiðslu með jarðvarma á Norðausturlandi

Eimur, í samstarfi við Íslensk verðbréf, Matarauð Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands kallar eftir hugmyndum sem stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda á Norðurlandi eystra. Hugmyndir mega vera á hvaða stigi sem er og fela í sér allt frá framleiðslu á hráefnum til fullunninnar matvöru. 

Jarðhitinn á Norðausturlandi er frábært tækifæri til þess að skapa verðmæti úr sjálfbærri orku. Við óskum eftir tillögum um hvernig við getum nýtt hitann í matvælaframleiðslu. Frumvinnsla, fullvinnsla, hliðarafurðir, hráefni, nýjungar, eitthvað spes, bara hvað sem er. Við viljum heyra þína hugmynd!  Þáttaka er öllum opin og hugmyndin má vera á hvaða stigi sem er. Sérstök áhersla er lögð á sjálfbærni og samvinnu ólíkra aðila.

Skila skal inn veggspjaldi, stærð A2, þar sem fram koma helstu atriði hugmyndarinnar. Eins þarf að fylgja greinargerð þar sem nánar er fjallað um tillöguna. Tillögum skal skila með tölvupósti á snabbi@eimur.is.

Frestur til að skila inn hugmyndum rennur út 15. maí.

Verðlaun

1. verðlaun eru kr. 2.000.000.
2. verðlaun eru kr. 500.000

Hægt er að leita til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Akureyri eftir ráðgjöf um útfærslu og uppsetningu á tillögum í samkeppnina. Nánari upplýsingar gefur Anna Guðný í síma 522 9431 eða annagudny@nmi.is.

Dómnefnd

Dómnefnd skipa Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, Sigríður Ingvarsdóttir, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Jón Steindór Árnason, Íslenskum verðbréfum, Brynja Laxdal, Matarauði Íslands ásamt einum fulltrúa frá Matís.