Flýtitenglar

Þingeyingum fjölgar umfram landsmeðaltal – miklar sveiflur innan svæðis

Starfssvæði AÞSkv. nýútkomnum tölum Hagstofu Íslands um íbúafjölda voru landsmenn 338.349 þann 1. janúar síðastliðinn og hafði fjölgað um 5.820 frá sama tíma í fyrra, eða um 1,8%.  Á sama tíma hafði íbúum á  starfssvæði atvinnuþróunarfélagsins fjölgað um  126 eða 2,6% og er það í fyrsta skipti í langan tíma sem þeim fjölgar umfram landsmeðaltal. Sú fjölgun dreifist ekki jafn um svæðið og er greinilegt að áhrif stórfjárfestinga á Húsavíkursvæðinu samhliða mikilli eflingu ferðaþjónustu í suðursýslunni skýra þróunina þar. Sú mikla fjölgun í dreifbýli í Norðurþingi sem fram kemur í tölunum skýrist af lögheimilisfesti þeirra sem starfa við uppbygginguna á Bakka en svæðið er utan skilgreindra þéttbýlismarka Húsavíkur. Hins vegar hefur sjávarútvegurinn, einkum uppsjávarveiðar og vinnsla, staðið frammi fyrir samdrætti sem, ásamt einhæfni í atvinnulífi og fábreytni í þjónustu, skýrir væntanlega að mestu þá fækkun sem fram kemur austast á svæðinu.

Í töflunni hér að neðan er greining á þessum tölum eftir sveitarfélögum og skilgreindum þéttbýlisstöðum á svæðinu.

2016 2017 Breyting
Norðurþing 2.825 2.963 138 4,9%
 – þar af Húsavík 2.182 2.196 14 0,6%
 – þar af Kópasker 124 109 -15 -12,1%
 – þar af Raufarhöfn 189 173 -16 -8,5%
 – þar af dreifbýli 330 485 155 47,0%
Skútustaðahreppur 408 425 17 4,2%
 – þar af Reykjahlíð 163 166 3 1,8%
 – þar af dreifbýli 245 259 14 5,7%
Tjörneshreppur 60 59 -1 -1,7%
Þingeyjarsveit 918 915 -3 -0,3%
 – þar af Laugar 122 106 -16 -13,1%
 – þar af dreifbýli 796 809 13 1,6%
Svalbarðshreppur 99 95 -4 -4,0%
Langanesbyggð 505 484 -21 -4,2%
 – þar af Þórshöfn 350 346 -4 -1,1%
 – þar af Bakkafjörður 85 77 -8 -9,4%
 – þar af dreifbýli 70 61 -9 -12,9%
Samtals 4.815 4.941 126 2,6%