Flýtitenglar

Nýr liðsmaður hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hefur samið við Þórarin Egil Sveinsson um tímabundið átaksverkefni sem felst í ráðgjöf við styrkingu innviða fyrirtækja og greiningu tækifæra sem m.a. hafa skapast vegna þeirrar miklu uppbyggingar sem nú stendur yfir í héraðinu. Gert er ráð fyrir að verkefnið standi í a.m.k. 6-8 mán. en framvinda þess mun ráðast af áhuga fyrirtækjanna.

Þórarinn Egill er lærður matvæla-/mjólkurverkfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum að Ási í Noregi og hefur lengst af starfað í og við framleiðslu og rekstur fyrirtækja, m.a sem mjólkursamlagsstjóri hjá Mjólkursamlagi KEA frá 1982 til 2000. Þá var hann lengi bæjarfulltrúi á Akureyri og sinnti ýmsum öðrum störfum þessu tengt. Síðan um aldamót hefur hann aðallega starfað við verkefni tengd atvinnu- og vöruþróun, nýsköpun og rekstrarráðgjöf, bæði á eigin vegum og annarra.

Atvinnuþróunarfélagið bindur miklar vonir við að fyrirtæki á starfssvæðinu muni nýta sér þessa þjónustu. Ráðgjöfin er miðuð við þarfir og aðstæður hvers og eins og verkefnin verða eins sérhæfð og einstaklingsmiðuð og hægt er. Áhersla er lögð á að gæta fyllsta trúnaðar. Þátttaka fyrirtækja er þeim að kostnaðarlausu en gera þarf ráð fyrir einhverju vinnuframlagi stjórnenda við greiningu og innleiðingu þeirra umbóta sem ráðist verður í.

Á næstunni verður áhugi fyrirtækja á verkefninu kannaður með það að markmiði að unnt verði að skipuleggja starfið og hefjast handa af fullum krafti að loknum sumarleyfum.

Forsvarsmenn og eigendur fyrirtækja eru hvattir til að hafa samband við félagið í síma 464 0417 eða á netfangið thorarinn@atthing.is og kynna sér þjónustuna.