Flýtitenglar

  • HerdubreidGrafarlond
  • Kópasker_ap2541
  1. 1
  2. 2
  3. 3
  4. 4
  5. 5
  6. 6

MARKAÐSSÓKN Í FERÐAÞJÓNUSTU

Íslandsstofa boðar til upplýsingafundar miðvikudaginn 19. september kl. 8.30-10 um markaðssókn í ferðaþjónustunni. Þar verður farið yfir strauma og stefnur og verkefnin framundan hjá Íslandsstofu og þau gögn sem gagnast geta fyrirtækjum í ferðaþjónustu í sinni markaðssókn. Fundurinn fer fram á Hilton Reykjavík Nordica en verður jafnframt streymt. – sjá nánar

Öxarfjörður í sókn – nýr verkefnastjóri

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hefur ákveðið að ganga til samninga við Charlottu Englund í Birkifelli í Öxarfirði, eða Lottu, um ráðningu í starf verkefnastjóra Öxarfjarðar í sókn sem er eitt af verkefnum Brothættra byggða. Hún mun taka við starfinu af Bryndísi Sigurðardóttur sem ætlar aftur vestur á firði og taka þar við starfi sveitarstjóra Tálknafjarðarhrepps.

Lotta hefur komið víða við í námi og hefur undir beltinu kúrsa í þjóðfræði, náttúruvísindum, viðskiptafræði og ferðamálafræði ásamt því að hafa tekið námskeið í framleiðslu- og gæðastjórnun.

Hún hefur síðustu ár verið að byggja upp fyrirtækið Active North í Öxarfirði ásamt því að leiða grasrótarverkefni íbúa sem felst í að byggja undir hugmyndir um baðstað á svæðinu. Áður hefur hún unnið hjá Vatnajökulsþjóðgarði m.a. sem yfirlandvörður og sérfræðingur og þar á undan var hún gæðastjóri hjá Fjallalambi. Hún hefur því fjölþætta reynslu þrátt fyrir ungan aldur og er vel kunnug svæðinu.

Við bjóðum Lottu velkomna til starfa hjá félaginu um leið og við þökkum Bryndísi vel unnin störf.

Skemmtiferðaskip

Skemmtiferðaskipakomum hefur fjölgað talsvert í Norðurþingi og í fyrsta skipti í fyrra komu skip til Raufarhafnar. Til Húsavíkurhafnar koma líklega þetta sumarið 43 skip sem er gríðarleg fjölgun frá í fyrra.

Starfsmaður Atvinnuþróunarfélagsins hefur verið að vinna með Norðurþingi að því að markaðssetja hafnirnar og kom út í fyrra bæklingur fyrir Raufarhafnarhöfn til að kynna fyrir skipafyrirtækjum. Bæklingnum er ætlað að fá fyrirtækin til að velja Raufarhöfn sem áfangastað. Einnig er í deiglunni að útbúa sambærilegan bækling fyrir Húsavíkurhöfn og verið er að vinna í heimasíðu fyrir hafnirnar.

Þessu fyrir utan hefur starfsmaður farið og hitt umboðsaðila og verið í samvinnu við Cruize Iceland. Bæklinginn má finna hér

 

Atvinnuskapandi menning í bland við allskonar

Vigdís Rún Jónsdóttir menningarfulltrúi Eyþings kynnti sér svæðið á dögunum. Það líður að því að auglýstir verði til umsóknar styrkir úr Uppbyggingarsjóði Eyþings og er stór hluti þeirra eyrnamerktur menningarverkefnum. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hlutverki menningar í samfélögum, bæði til að auka félagsauð og þar með aðdráttarafl svæðis. Einnig fylgja menningaruppbyggingu áhugaverð störf og því mikilvægt að atvinnuþróun og menningaruppbygging vinni vel saman.

Vigdís Rún setti saman stórgóða frétt á vef Eyþings þar sem farið er í gegnum heimsóknina og þá frétt má finna hér. Finna má fleiri myndir frá ferðinni inn á Facebook síðu Atvinnuþróunarfélagsins.